Fangelsi á Hólmsheiði

Grunnmynd
Útlit
Útlit / sneiðing
Fangaklefi

Fangelsi á Hólmsheiði, samkeppnistillaga
2012

3. verðlaun í opinni samkeppni

Tillaga að fangelsi á Hólmsheiði endurspeglar þá hugmyndafræði að í refsivist einstaklinga eigi að felast tækifæri til að bæta ráð sitt. Markmiðið er að aðstæður séu góðar fyrir starfsmenn og fanga. Dagsbirta, hljóðvist, góð lýsing, fagurlega mótuð rými, áhugaverðar gönguleiðir, tengsl við fallega garða, möguleiki á útsýni og listræn skreyting eru þættir sem liggja til grundvallar tillögu. Lögð er áhersla á sveigjanleika, aðskilnað, góða yfirsýn starfsmanna og takmarkaða yfirsýn fanga.

Fangaeiningar eru álmur með fjórum eða átta fangaklefum ásamt dagstofu og ræstingu. Fangaeiningar liggja þvert á ás, þar sem eru aðalumferðarleiðir, vinnustofur, innigarðar og tómstundaherbergi ásamt þjónustu- og starfsmannaaðstöðu. Öll dvalarrými hafa ríkulega dagsbirtu og fangaklefar snúa til vesturs. Fangar fá gott útsýni frá klefum sínum, nærútsýni yfir fangagarðinn, sem opnast annaðhvort til suðurs með fjallasýn eða að skógivaxinni hlíðinni til norðurs.

Yfirsýn er eitt af grundvallaratriðum við lausn fangelsis. Starfsmenn hafa góða yfirsýn og greiðan aðgang að öllum rýmum, en fangar hafa hinsvegar takmarkaða yfirsýn og aðgengi.  Frá fangaeiningum hafa fangar aðeins yfirsýn yfir fangagarð einingarinnar og ekki sést milli fangagarða, sem eru afmarkaðir með byggingum á þrjá vegu og girtir af milli eininga.

Fangaklefinn er grunneining fangelsisins. Stærð klefans er takmörkuð, en lögun og gluggasetning er með þeim hætti að klefanum er gefin aukin rýmd. Gangar fangaeininga hafa áhugavert þversnið, útveggurinn hallast lítið eitt útávið og hvelfist yfir ganginn og verður að þaki. Þakgluggum er komið fyrir milli innganga í fangaklefa. Inngarðar í fangelsisás gefa aðalumferðarleiðum jákvæða upplifun og fjölbreytni.

Lögð er áhersla á að náttúrulegt umhverfi lóðar fái að njóta sín eins og kostur er og leitast við að takmarka röskun og umbreytingu á landi. Fangelsisbyggingin skal falla vel að landinu og undirstrika sérkenni þess.

Merkt sem:
2010-2014 Verðlaun