Óðinstorg

Afstöðumynd
Hugmyndaskissa
Horft til norðurs
Horft til norðurs
Horft til austurs
Horft til austurs
Viðburðir á torginu
Viðburðir á torginu
Skáli

Óðinstorg, samkeppnistillaga
2014

Óðinstorg er perla í borgarumhverfinu. Torgið er í hringiðu miðbæjarins, í góðum tengslum við helstu verslunargötur, kaffi- og veitingastaði en er á sama tíma lítið eitt afsíðis og falið. Torgið er umlukið götum á þrjá vegu og húsum á einni hlið. Rýmið er skjólsælt og liggur vel við sólu, kjöraðstæður sem bjóða upp á mikla notkun og fjölbreytta starfsemi, sérstaklega yfir sumartímann.

Markmið tillögunnar er að Óðinstorg verði staður þar sem nágrannar hittast og taka tal saman, forvitnir ferðamenn koma við og þar verða haldnir ýmsir viðburðir. Markmið er að torgið styðji og styrki starfsemi í aðliggjandi byggingum og næsta nágrenni. Tillagan sækir innblástur til norrænnar goðafræði en nafngiftir á torginu og nærliggjandi götum vísar til hennar. Torgið ber nafn Óðins, sem er æðstur ása, hestur hans er hinn áttfætti Sleipnir sem er bestur af hestum ásanna og þeim töfrum gæddur að geta flogið á milli heima. 

Torginu er skipt í þrjú ólík svæði: lítinn garð milli húsanna, útiverönd á efri stalli og heim ímyndunaraflsins á neðri stalli, þar er umhverfislistaverkið Sleipnir. Svæðin hvetja öll til ólíkra athafna og skapa þannig fjölbreyttan bakgrunn fyrir ýmsa viðburði. Útiveröndina á efri stallinum er hægt að nota undir fjölbreytta félagslega starfsemi eins og útiveitingahús eða markaði meðan litli garðurinn, í innskoti milli húsa, býður upp á aflokað rými til þess að njóta og hugleiða. Sleipnir er fjölnota umhverfislistaverk með margþætt hlutverk, staðsett á neðri stalli torgsins. Listaverkið er leiksvæði fyrir börn, fætur hestsins mynda opin og lokuð setsvæði fyrir gesti torgsins. 

Starfsemi við torgið er aukin með nýjum fjölnota skála í rýminu milli húsanna við norðurhluta þess. Skálinn rammar inn torgið að hluta og afmarkar garðrýmið aftan við hann. Skálinn verður opinn almenningi fyrir ýmsa viðburði eins og markaði, sýningar og tilfallandi veitingasölu t.d. fyrir hverfishátíðir og afmæli. Skálinn eykur notagildi torgsins óháð veðráttu eða árstíðum.

Hæðarmunur í landi er tekinn upp í stöllum og skiptir torginu í efri og neðri stall. Stallarnir eru tengdir saman með þrepum, pöllum og skábrautum til að tryggja aðgengi fyrir alla. Hægt er að nýta þrep og palla sem set- og leiksvæði eða sem áhorfendapalla þegar viðburðir eru á torginu. Stórum trébekkjum og smærri tréstólum úr rekavið er komið fyrir á torginu, sem býður upp á fjölbreytt félagsleg samkipti hvort sem vegfarandi er í hóp, einn að horfa á umhverfið eða að spjalla við góðan vin.

Tillagan er unnin í samstarfi við jvantspijker og felixx frá Hollandi.

Merkt sem:
2010-2014