Safnaðarheimili Ástjarnarkirkju

Horft til norðurs - áfangi 1
Horft til norðurs - áfangi 1 og 2
Fjölnotasalur - áfangi 1
Afstöðumynd
Grunnmynd - áfangi 1
Grunnmynd - áfangi 1 og 2
Útlit suður - áfangi 1 og 2
Sneiðing A-A - áfangi 1 og 2
Útlit vestur - áfangi 1 og 2
Sneiðing B-B - áfangi 1 og 2
Útlit norður - áfangi 1 og 2
Útlit austur - áfangi 1
Útlit austur - áfangi 1 og 2
Horft til austurs að sáluhliði - áfangi 1 og 2
Horft til suðurs - áfangi 1 og 2
Horft til vesturs - áfangi 1
Horft til vesturs - áfangi 1 og 2

Safnaðarheimili Ástjarnarkirkju, samkeppnistillaga
2014

Sóknarnefnd Ástjarnarkirkju efndi til opinnar hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og óskað var eftir hugmyndum um hönnun safnaðarheimilis og skipulag lóðar þar sem innbyrðis tengslum safnaðarheimilis og fyrirhugaðrar kirkju væru gerð skil. Kirkja og safnaðarheimili Ástjarnarkirkju mun rísa að Kirkjuvöllum 1 í Hafnarfirði. Verkefnið er áfangaskipt. Í fyrri áfanga mun safnaðaheimili rísa og kirkjubygging í síðari áfanga.

Vellir í Hafnarfirði er nýbyggingarsvæði sem hefur byggst upp á undanförnum árum. Þar er íbúðarbyggð og fjölbreyttur atvinnurekstur, verslanir, grunnskóli, tveir leikskólar, sundlaug og íþróttamiðstöð. Ósnortin náttúra er innan seilingar, Ásfjall og Ástjörn, Hvaleyrarvatn, Helgafell og Bláfjöll. Lóð Ástjarnarkirkju er á mörkum íbúðarbyggðar og verslunar- og þjónustusvæðis. Ástjarnarkirkja fær það hlutverk að vera staður, sem íbúar hverfisins leita til á gleði- og sorgarstundum og margir sinna þar sínum áhugamálum í fjölbreyttu safnaðarstarfi.

Sérstaða kirkjulóðar felst í staðsetningu, umhverfi og nánum tengslum við hverfisverndað hraunið. Þar liggja áskornanir og tækifæri. Markmið er að takmarka röskun á hrauni og draga fram kosti staðarins með látlausri byggingu, sem þjónar fjölbreyttu hlutverki safnaðarins.

Húsakostur safnaðarheimilis og kirkju skal vera sveiganlegur og bjóða upp á fjölbreytta notkunarmöguleika í nútíð sem framtíð. Notendavæn fjölnota bygging fyrir fjölbreytta starfsemi safnaðarins. Safnaðarheimilið mun þjóna hlutverki kirkju fyrst um sinn. Safnaðarsalurinn er fjölnotasalur, sem skipta má upp í allt að fimm smærri sali, með færanlegum veggeiningum auk þess má sameina safnaðarsalinn forsal og kaffihúsi í eitt stórt rými. Safnaðarsalurinn fær kirkjulegt yfirbragð með einföldu grunnformi og fjölbreyttu þakformi sem endurspeglar uppskiptingu salarins í minni sali. Hver salarhluti er heilsteypt eining, samsettir salirnir mynda tilkomumikinn sal, þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. 

Yfirbragð innviða safnaðarheimilisins er bjart og hlýlegt. Samspil ljóss og skugga gegna mikilvægu hlutverki, hliðarbirta kemur frá gluggum til suðurs og ofanbirta um þakglugga, sem mynda óreglulegt mynstur í þakfletinum. Helgimunum er komið fyrir við austurvegg safnaðarsalar í samræmi við íslenska kirkjuhefð. Austurveggurinn er stór gluggaveggur sem síðar mun opnast inn í kirkjurýmið. Samkomurýmin opnast út að kirkjuhlaðinu.

Heildarlausn húsnæðisins er einföld en tilkomumikil nútímabygging með skýr skotun til byggingararfleiðar. Innra og ytra fyrirkomulag endurspeglar innbyrðis tengsl og sérstöðu hvers rýmis og samspil við umhverfið, þar sem innri og ytri rými, mannvirki og náttúra tvinnast saman í eina heild. Sveiganleiki með tilliti til áfangaskiptingar felst í því að safnaðarheimilið getur staðið sem fullkláruð bygging, þar til kirkjan verður byggð. Efnisval miðast við endingargóð og viðhaldsvæn byggingarefni, sem eru ákjósanleg með tilliti til umhverfis- og vistfræðiþátta.

Merkt sem:
2010-2014